miðvikudagur, 8. ágúst 2012

Langhlaup eða spretthlaup?


Í tilefni af ólympíleikunum í London langar mig til að leggja lauflétta tilvistarspurningu fyrir lesendur.

Oft er sagt að lífið sé langhlaup. Þessu heldur til að mynda Lýðheilsustöð fram af mikilli festu.

En hvernig getur maður verið viss um að lífið sé ekki spretthlaup og maður sjálfur bara að skokka í rólegheitunum meðan hinir eru löngu komnir í mark?

Jamaíkabúinn Usain Bolt sigraði í 100m spretthlaupi á Olympíuleikunum í London á tímanum 9,63 sekúndur.

Hvað er ykkar skoðun?

Menntavegurinn

Hvernig vegur er menntavegurinn?

Þrautabraut
Er skólakerfið eins og þrautabraut
þar sem kennarar
reyna að bregða fæti fyrir nemendur
og fella þá úr keppni?
Völundarhús

Eða feta námsmenn dimma ganga völundarhúss
hvers útgönguleiðir reynast vandfundnar?

þriðjudagur, 7. ágúst 2012

þýsk íslenska

Á  Íslandi reka yfirvöld málverndarstefnu af mikilli festu. Íslenskan skal vera hrein og því hika foreldrar og kennarar ekki við að skamma unglinga fyrir enskuslettur. Unglingum finnst sletturnar svalar (enska: cool), en hinir fullorðnu geta af reynslu sinni bent á að dönskusletturnar sem tíðkuðust fyrir hundrað árum þykja ekki lengur fínar.

En það er ekki sama úr hvaða máli er slett. Mér finnst ógeðslega geil að sletta úr þýsku. Þar bjó ég seinustu fjögur ár. Og núna skrifa ég mastersritgerð, sem ég á að skila á þýsku til Humboldt Universität zu Berlin. En ég get ekki, eða vill ekki hugsa allt frá grunni á þýsku. Hugsun mín fer að mestu fram á íslensku, en ég er farinn að þróa hjá mér einhverskonar stíl sem hentar vel til að þýða á þýsku. Hérna kemur dæmi:

„Gott dæmi um þetta eru viðbrögðin við bréfi eiginmannsins,  „mit verzerrtem Gesicht im Bett aufgerichtet“(310), og hvernig hún í sama bréfi meðfylgjandi ljósmynd af syninum bregst við, „Da reißt Frau Vogler das Photo mittendurch“(310). Þannig  erfahren wir um skoðanir hennar á eiginmanni og syni, sem koma lítið við sögu í eigin persónu.“

Ég hef mjög gaman af þessum stíl. Supergeil.

mánudagur, 6. ágúst 2012

Tónlist við mastersritgerð

Um þessar mundir sit ég stíft við að klára mastersritgerðina mína. Ég hef komið mér fyrir í kjallaranum hjá foreldrum mínum og skrifa af miklum móð til að geta skilað af mér fyrir deadline.

Til að stytta mér stundir hlusta ég mikið á tónlist. Ég vill helst ekki hlusta á sungna tónlist meðan ég skrifa, því mér finnst texti söngvarans trufla mig. Í heilan mánuð hlustaði ég því  aftur og aftur í gegnum sex geisladiska sett af instrumental klassískri tónlist sem heitir Smooth Classics.


Svo fór ég að verða brjálaður af að hlusta endalaust á einhverjar fiðlur. Þá fór ég í gegnum geisladiskasafnið í gamla herberginu mínu uppi. Síðan þá hef ég hlustað aftur og aftur á þessar plötur. Í fyrsta lagi Britpop-upprifjun.

Blur - The best of
  
Oasis - Whats the Story Morning Glory
Svo Kántrísveifla.
Bob Dylan - Nashville Skyline
Þetta er að einhverju leyti asnaleg plata, þar sem Bob syngur kántrí með kjánalegri rödd. en rosalega skemmtileg og ég get hlustað á hana ótrúlega oft.

Og svo þegar ég er í dramatísku stuði fyrir showdown. Showdown þar sem ég þarf að klára ákveðinn kafla þá hlusta ég á
Movie Classics of Ennio Morricone and Hugo Montenegro
 
 

mánudagur, 23. júlí 2012

Varið ykkur á sölumönnum snákaolíu

Að gefnu tilefni ætla ég að vara við sölumönnum snákaolíu. Áður en ákvörðun er tekinn ætti alltaf að kynna sér vandlega innihald flöskunnar og meta hvort það er peningana virði.

Hérna er leikið myndband, sem sýnir dæmigerða snákaolíusölumenn að störfum.

sunnudagur, 22. júlí 2012

Borgarljóð: Borg óttans

Borg óttans, spítali geðlyfjanna, svefnherbergi þunglyndisins, líkamsræktarsalur sjálfspíningarinnar, gangstétt ferðalangsins, akvegur bifreiðastjórans, bílagata hjólreiðamannsins, morgunnverður hómópatans, vinahópur fjárglæframannsins, stefnuleysi togaraskipstjórans, hráolíuvinnsla arabaþjóða, gjaldmiðill tortímingarinnar í heimsálfu óttans, húsnæðislán fjölskylduföðurins, efnahagsreikningur viðskiptabankans, stjórnmálaflokkur stóreignamannsins, hagsmunamál fjármagnseigandans, hlekkir hins eignalausa, verðbólga, verðtrygging og gengisfall.

Borgarljóð: Í Vesturbænum

ÉG HITTI GAMLAN MANN, HÁR HANS VAR SVART. HANN KOM HLAUPANDI TIL MÍN Í GLÆNÝJUM ADIDAS SKÓM. HANN HRÆKTI Í HÁRIÐ MITT OG HRIFSAÐI AF MÉR HANDTÖSKUNA. HANN ÖSKRAÐI: NIÐUR MEÐ KERFIÐ! HELVÍTIS FOKKING FOKK!

föstudagur, 20. júlí 2012

Gamlingjaréttindi

Það er talað um að vernda rétt einstaklinga til að vera börn og njóta barnæskunnar. Þessi metnaður kemur meðal annars fram í barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og í barnabókamenningu Hvað um hitt að vernda rétt einstaklingsins til að vera gamlingjar og njóta ellinnar. Er til hliðstæður gamlingjasáttmáli sameinuðu þjóðana og gamlingjabókmenntir? Er þetta tvennt yfir höfuð hliðstætt?

föstudagur, 29. júní 2012

Óvissutímar

Menn tala um að við lifum á tímum mikillar óvissu. Um hvaða hluti ríkir óvissa?

1. Hver verður kosinn forseti? Ólafur eða Þóra?
2. Hvernig verður dæmt í Icesave málinu? Munu Íslendingar þurfa að borga „skuldir óreiðumanna“?
3. Hvort munu Íslendingar samþykkja eða hafna nýju stjórnarskránni frá stjórnlagaráði?
4. Hvort segja fleiri já eða nei í kosningum um aðild að ESB?

Um þessa hluti ríkir bullandi óvissa og því verður spennandi að fylgjast með þjóðmálunum á næstu mánuðum og árum.

Framtíðin er í eðli sínu óviss. Mönnum reynist erfitt að spá um hluti, sérstaklega um framtíðina. Því má segja að það ríki óvissa um allskonar hluti.

5. Munu Íslendingar glata fullveldi sínu?
6. Munu Íslendingar hætta að nota íslenska krónu?
7. Munu Íslendingar hætta að tala íslensku?
8. Mun einhver búa á Íslandi eftir hundrað ár?
9. Munu barnabörnin verða mjög fúl ef við virkjum of mörg fljót?
10. Munu börn, barnabörn, barnabarnabörn lifa hamingjusömu lífi?

Endalaust er hægt að velta fyrir sér óvissum hlutum, því býð ég grandvörum lesendum bloggsins að bæta inn fleiri óvissuþáttum, sem þeir missa svefn yfir.

miðvikudagur, 25. apríl 2012

Er lífið - og jafnvel sjálft Landsdómsmálið - Leikhús Fáránleikans?

Fáránlegur ljóðaupplestur dadaistans Hug Ball
Í leit sinni að sannri þekkingu kom að því að Sókrates leitaði uppi skáldin og spurði þau um hvað þau vissu? Hann komst að sömu niðurstöðu og hann komst að varðandi aðrar starfsstéttir, að skáldin vissu ekki neitt frekar en hann sjálfur.

Ég vissi ekki af þessum rannsóknarniðurstöðum Sókratesar þegar ég var tvítugur og skráði mig í háskólanám í bókmenntafræði. Ég, eins og allt annað ungt fólk, vildi vita allt og skilja allt. En þar sem tíminn er naumt skammtaður og lífið skilyrt af ýmsum óþægilegum aðstæðum þurfti ég að ganga strategískt til verksins. Á endanum veðjaði ég á skáldin. Ég ákvað að beina spurningum mínum til þeirra.

Mörgum árum síðar sannfærist ég meir og meir um niðurstöðu Sókratesar. Skáldin vita ekkert í sinn haus. Og ég er í auknum mæli farinn að beina spurningum mínum til hagfræðingana, en inní mér býr nagandi efi um hvort þeir viti eitthvað frekar.

Í millitíðinni er þó hægt að slá um sig með tilvitnunum. Í tengslum við Landsdómsmálið finnst mér viðeigandi að vitna í enska 18. aldar höfundinn Henry Fielding, sem skrifaði eftirfarandi í skáldsöguna Tom Jones:

Life most exactly resembles the stage, since it is often the same person who represents the villain and the heroe.
Skúrkur
Og á öðrum stað rökstyður Fielding þessa fullyrðinguna svona:

For though the facts themselves may appear, yet so different will be the motives, circumstances, and consequences, when a man tells his own story, and when his enemy tells it, that we scarce can recognize the facts to be one and the same.

eða hetja?
Þetta nær ágætlega utan um það, sem situr eftir í mér eftir að hafa fylgst með réttarhöldunum yfir Geir Haarde. Hversu ólíkt menn segja frá og túlka atburði eftir því frá hvaða sjónarhóli menn líta á málið.

Ef maður les mikið af bloggum, eins og ég geri, þá rekst maður oft á þá kenningu að allskonar uppákomur, sem fjölmiðlar segja frá, séu bara leikrit. Stundum tilgreina menn hver sé höfundur verksins og hverjir leiki hlutverkin. Til dæmis skrifaði Guðni Ágústsson um það að stjórnmálaflokkurinn Björt Framtíð væri leikrit, sem Össur Skarphéðinsson hefði samið. Og aðrir hafa sagt að Guðni ásamt Mikka Mús, hafi leikið aðalhlutverkið í nýlegu leikriti eftir Ólaf Ragnar Grímsson, sem hét „Áskorun til Forseta Íslands”. Svo halda því margir fram að leikhúsmaðurinn Hádegismóri sé helsti strengjabrúðumeistari landsins. Oft greina menn á milli hvort eitthvað sé tragedía eða leikhús fáránleikans.

Einu sinni sat ég á knæpu í Berlín og drakk bjór með þremur doktorsnemum í heimspeki.  Þá ákvað ég að nýta mér tækifærið og leggja undir þá þessa leikhúskenningu um veruleikann, sem Shakespeare orðaði þannig:

All the world's a stage,
And all the men and women merely players;
They have their exits and their entrances,
And one man in his time plays many parts,
His acts being seven ages.
 
Þeir höfðu allir hugsað um þetta djúpt og lengi, en  komist að þeirri niðurstöðu að þessi myndhverfing stæðist ekki og næði ekki að fanga veruleikann. En ég man ekki rökin, sem þeir færðu fyrir því, og þess vegna veldur kenningin mér áfram miklum heilabrotum. Ég verð að viðurkenna að ég kemst ekki að neinni niðurstöðu í málinu.

sunnudagur, 4. mars 2012

Af valdarónum, ritsóðum og athugasemdaskúmum

Þegar ég var 16 ára fór ég á borgarbókasafnið og tók út öll fjögur bindin af Stríði og friði eftir Tolstoy, því einhver hafði sagt að þetta væri ein besta skáldsaga í heimi. Breið þjóðfélagsrýni með yfir 500 persónum sem nær utan um allt rússneskt samfélag frá bændum til aristókrata í Rússlandi á tíma Napoleonstríðanna. Ég kláraði aldrei söguna. Eftir hundruðir blaðsíðna fannst mér alltaf að sagan væri samt bara að byrja og það væri endalaust eftir.

Svona líður mér alltaf í dag þegar ég internetsörfa um bloggheima og annað stöff á veraldarvefnum. Bloggið og facebook og allt þetta dót hefur hrint af stað gígantísku samfélagslegu skrifprojekti, þar sem allskonar fólk kveður sér hljóðs og segir frá einhverju eða gerir athugasemdir og svo framvegis. Niðuarstaðan er nánast óendanlega breið og löng samfélagsleg skáldsaga, sem maður getur lesið endalaust og manni finnst alltaf sagan vera rétt að byrja og endalaust eftir. Þó hef ég ekki enn lagt frá mér bókina. Í raun er ég gagntekinn af þessu lesefni og sogast inn þennan heim á nánast hverjum einasta degi.

Ég ætla hér að fjalla um nokkrar af mínum uppáhaldstýpum sem oft skjóta upp kollinum í þessari breiðu samfélagsskáldsögu.

1. Athugasemdaskúmar

Að mínu mati eru athugasemdaskúmarnir langskemmtilegustu fígúrurnar á alnetinu. Ég get varla hamið mig í hvert sinn sem ég les pistil eða bloggfærslu að skrolla niður síðuna til að sjá hvort einhver úrillur öfgamaður sé búinn að drita í athugasemdakerfið. Best finnst mér þegar skúmarnir tjá sig með sérkennilegri stafsetningu, eins og að SKRIFA ALLT Í HÁSTÖFUM til að tjá sérstaklega sterka reiði, eða eða að setja þrjá punkta ... í hvert sinn sem skrifarinn hefur stoppað til að anda.

2. Ritsóðar

Eftir áratuga flugsamgöngur til og frá Íslandi hefur það loks komist úr týsku að vera flugdólgur. Í staðinn hafa internetdólgar snúið sér að dónaskap í tölvutæku formi. Það eru þeir sem hafa stofnað blogg að því er virðist eingöngu til að skíta yfir fólk. Stundum kalla menn þessa týpu sóðabloggara.


3. Mannorðsmorðingjar

Það eru þeir kallaðir sem skrifa eitthvað neikvætt um fræga eða ríka einstaklinga. Þeir flokkast sem slíkir sama hvort það sem þeir segja er satt eða logið. Kirkjunnar menn stilla sér oft upp í einskonar heilagt stríð gegn þessum týpum.


4. Lýðskrumarar

Stundum líka kallaðir upphlaupsmenn. Upphlaupsmenn hvetja annað hvort til upphlaups í Þingsölum, eða  á torginu fyrir utan þinghúsið. Ef einhver valdaróni segir eitthvað gott um útlendinga þá bregst lýðskrumarinn við með svika- og landráðabrigslum.

5. Valdarónar


Það mætti færa rök fyrir því að valdarónar séu aðalpersónurnar í þessari breiðu samfélagslegu skáldsögu. Því nánast allt sem er skrifað og kommentað snýst með einum eða öðrum hætti um fígúrur, sem flokkast í þennan hóp. Valdarónar eru fíflin sem stjórna öllu. Þetta eru dusilmenni og gungur og druslur, sem með útpældum samsærum hafa sölsað undir sig öll völd í samfélaginu. Og á meðan þessir einstaklingar skíta í brók þá sveima athugasemdaskúmarnir og drulla yfir þá. Þannig skapast helsta dramatíkin í þessum heimi.

þriðjudagur, 7. febrúar 2012

Hefur heimurinn einhverntima verid verri? Hversu miklar hörmungar eru framundan?

Fidel Castro segir ad heimurinn hafi aldrei verid verri og ser fram a miklar hörmungar. Thetta tilkynnti hinn reynslumikli landsfadir a bladamannafundi i tilefni af utkomu aevisögu hans. eyjan.is segir fra.


Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi, aetlar ad halda afram ad vera bjartsynn.  
„Ég ætla bara að halda áfram að vera bjartsýnn“. DV segir fra.

 

miðvikudagur, 25. janúar 2012

Nokkrir mögulegir forsetar

A.
Bidjum Dani afsökunar.
Margreti Þórhildi sem thjodhöfdingja 2012!


B.
Kjosum Dorrit 2012!



C.
Palla a Bessastadi
Stanslaust stud 2012


D.
Gefumst ekki upp!
Fridur 2012

Her med hef eg sagt allt sem eg aetla ad segja um forsetakosningar a Islandi 2012.

laugardagur, 21. janúar 2012

Frelsum-Geir-Samtökin


Úr Stjórnarskrá Íslands frá 1944
14. gr. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.

Hvaða lógík liggur á bakvið það að vera bæði á móti þessari núverandi stjórnarskrá og því að fá nýja stjórnarskrá frá Stjórnlagaráði?

Ég spyr mig til dæmis um hvaða lógík lá að baki þegar biskpu íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, kallaði það í ræðu "þjóðarsmán" að Alþingi kæri Geir Haarde fyrir Landsdómi. Meinar hann að það sé "þjóðarsmán" að fylgja því sem stendur í stjórnarskránni frá 1944?

Og Bjarni Benediktsson, sem er bæði á móti Landsdómsmálinu og á móti nýrri stjórnarskrá. Hvernig leggur hann saman tvo og tvo?



 Ég er ekki svo hrifinn af Frelsum-Geir-Samtökunum. Ég skil ekki alltaf íslensk stjórnmál. Mér finnst að minnsta kosti samtökin um að frelsa Bradley Manning miklu mikilvægari. Þeim unga manni er gefið að sök að hafa sent skjöl um stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak og Afganistan til Wikileaks. Honum hefur núna verið haldið í einangrun í meira en ár án nokkura réttarhalda.

Í þessu samhengi spyr maður sig. Hvort er meiri glæpur að segja frá, eins og Manning er sakaður um, eða þegja, eins og Geir er sakaður um?