laugardagur, 26. september 2020

þriðjudagur, 14. október 2014

Nýr titill bloggsins

Ég hef ákveðið að gefa blogginu mínu nýtt nafn. Framvegis mun það heita Tilraunir. Titillinn er þýðing á enska orðinu "essay". Ég mun gera tilraunir til að fjalla um ýmis mál. Í nýjum undirtitli kemur fram hvaða mál það eru.

- um allt milli himins og jarðar (undirdjúpin og himingeimurinn meðtalinn), aðallega menningarleg fyrirbæri, en helst ekki Tagespolitik, þ.e.a.s. argaþras.

laugardagur, 5. apríl 2014

Þematengd tónlist: Flugvélar

Flest lög fjalla um eitthvað þó að tónlist (hljómar og nótur) hafi ekki neina merkingu í eiginlegum skilningi. Söngvarinn syngur texta sem þýðir eitthvað og nú til dags hafa mörg lög myndband á youtube. Í dag ætla ég að fjalla um þrjú lög sem með einum eða öðrum hætti fjalla um flugvélar. Fyrirmyndin mín að þessari umfjöllun er útvarpsþáttur Bob Dylan sem heitir Theme Time Radio Hour. Þar spilar hann alltaf nokkur lög út frá einhverju þema. Lögin í útvarpsþætti Bob Dylan eru aðgengileg á spotify.

1. Fyrsta flugvélalagið mitt er Never Content með sænsku hljómsveitinni Air France. Það er ekkert í texta lagsins sem tengir það við flugvélar. Reyndar er textinn ekki sunginn nógu skýrt til að ég skilji hann. En meðlimir hljómsveitarinnar hafa af einhverjum ástæðum kosið að nefna hana eftir franska flugfélaginu Air France og í myndbandinu við lagið fylgjum við flugvél í flugtaki og flugi sem endar í nágrenni við Tvíburaturnana í New York, sem eins og allir vita hrundu eftir að flugvélar flugu inn í þá. Inniheldur lagið einhver leynileg skilaboð varðandi 9/11? Mér finnst þetta allavega mjög skemmtileg lag og hef hlustað á það oft því það lætur mér líða vel.



2. Stundum fá lög nýja merkingu af því að hljóma í ákveðnu samhengi í kvikmyndum. Eitt eftirminnilegasta dæmið um slíkt sem ég man eftir er flutningur laganna Blue Velvet með Bobby Vinton og In Dreams með Roy Orbison í kvikmynd David Lynch Blue Velvet. Inn í þetta flugvélaþema ætla ég að tilnefna ábreiðu Gary Jules af laginu Mad World, sem upphaflega var flutt af hljómsveitinni Tears For Fears. Þessi ábreiða var spiluð í kvikmyndinni Donnie Darko með Jake Gyllenhall í aðalhlutverki. Í laginu syngur Gary Jules: „The dreams in which I´m dying are the best I´ve ever had". En kvikmyndin hefst einmitt á því að persóna Jake Gyllenhall dreymir að þotuhreyfill lendi ofan á húsinu hans. Vegna þessa draums og risastóru kanínunnar sem ofsækir hann er hann talinn geðveikur og þarf að fara til sálfræðings. Kvikmyndin endar svo á því að flugvél hrapar og þotuhreyfill lendir ofan á húsinu hans. Já, „it´s a mad world."



3. Engin umræða um flugvélatengd lög væri fullkomnuð án þess að nefna one hit wonder hljómsveitarinnar The Motors „Airport". Í þessu hressa popplagi er textagerðin afar frumleg. Söngvarinn fær útrás fyrir gremju sína vegna kærustunnar sem fór frá honum með því að saka flugvöllinn um að hafa stolið henni frá honum. Hann hefur fylgt henni á flugstöðina og heyrir í vélinni sem mun taka ástina hans frá honum. „I hear the plane is ready by the gateway to take my love away". Svo þegar flugvélin er farinn situr söngvarinn eftir með brostið hjarta og endurtekur í sífellu hið nístandi sára viðlag. „Airport! / Airport, you´ve got a smiling face, / you took the one I love so far away. / Fly her away. / Fly her away. / Airport!"



miðvikudagur, 8. ágúst 2012

Langhlaup eða spretthlaup?


Í tilefni af ólympíleikunum í London langar mig til að leggja lauflétta tilvistarspurningu fyrir lesendur.

Oft er sagt að lífið sé langhlaup. Þessu heldur til að mynda Lýðheilsustöð fram af mikilli festu.

En hvernig getur maður verið viss um að lífið sé ekki spretthlaup og maður sjálfur bara að skokka í rólegheitunum meðan hinir eru löngu komnir í mark?

Jamaíkabúinn Usain Bolt sigraði í 100m spretthlaupi á Olympíuleikunum í London á tímanum 9,63 sekúndur.

Hvað er ykkar skoðun?

Menntavegurinn

Hvernig vegur er menntavegurinn?

Þrautabraut
Er skólakerfið eins og þrautabraut
þar sem kennarar
reyna að bregða fæti fyrir nemendur
og fella þá úr keppni?
Völundarhús

Eða feta námsmenn dimma ganga völundarhúss
hvers útgönguleiðir reynast vandfundnar?

þriðjudagur, 7. ágúst 2012

þýsk íslenska

Á  Íslandi reka yfirvöld málverndarstefnu af mikilli festu. Íslenskan skal vera hrein og því hika foreldrar og kennarar ekki við að skamma unglinga fyrir enskuslettur. Unglingum finnst sletturnar svalar (enska: cool), en hinir fullorðnu geta af reynslu sinni bent á að dönskusletturnar sem tíðkuðust fyrir hundrað árum þykja ekki lengur fínar.

En það er ekki sama úr hvaða máli er slett. Mér finnst ógeðslega geil að sletta úr þýsku. Þar bjó ég seinustu fjögur ár. Og núna skrifa ég mastersritgerð, sem ég á að skila á þýsku til Humboldt Universität zu Berlin. En ég get ekki, eða vill ekki hugsa allt frá grunni á þýsku. Hugsun mín fer að mestu fram á íslensku, en ég er farinn að þróa hjá mér einhverskonar stíl sem hentar vel til að þýða á þýsku. Hérna kemur dæmi:

„Gott dæmi um þetta eru viðbrögðin við bréfi eiginmannsins,  „mit verzerrtem Gesicht im Bett aufgerichtet“(310), og hvernig hún í sama bréfi meðfylgjandi ljósmynd af syninum bregst við, „Da reißt Frau Vogler das Photo mittendurch“(310). Þannig  erfahren wir um skoðanir hennar á eiginmanni og syni, sem koma lítið við sögu í eigin persónu.“

Ég hef mjög gaman af þessum stíl. Supergeil.

mánudagur, 6. ágúst 2012

Tónlist við mastersritgerð

Um þessar mundir sit ég stíft við að klára mastersritgerðina mína. Ég hef komið mér fyrir í kjallaranum hjá foreldrum mínum og skrifa af miklum móð til að geta skilað af mér fyrir deadline.

Til að stytta mér stundir hlusta ég mikið á tónlist. Ég vill helst ekki hlusta á sungna tónlist meðan ég skrifa, því mér finnst texti söngvarans trufla mig. Í heilan mánuð hlustaði ég því  aftur og aftur í gegnum sex geisladiska sett af instrumental klassískri tónlist sem heitir Smooth Classics.


Svo fór ég að verða brjálaður af að hlusta endalaust á einhverjar fiðlur. Þá fór ég í gegnum geisladiskasafnið í gamla herberginu mínu uppi. Síðan þá hef ég hlustað aftur og aftur á þessar plötur. Í fyrsta lagi Britpop-upprifjun.

Blur - The best of
  
Oasis - Whats the Story Morning Glory
Svo Kántrísveifla.
Bob Dylan - Nashville Skyline
Þetta er að einhverju leyti asnaleg plata, þar sem Bob syngur kántrí með kjánalegri rödd. en rosalega skemmtileg og ég get hlustað á hana ótrúlega oft.

Og svo þegar ég er í dramatísku stuði fyrir showdown. Showdown þar sem ég þarf að klára ákveðinn kafla þá hlusta ég á
Movie Classics of Ennio Morricone and Hugo Montenegro