sunnudagur, 4. mars 2012

Af valdarónum, ritsóðum og athugasemdaskúmum

Þegar ég var 16 ára fór ég á borgarbókasafnið og tók út öll fjögur bindin af Stríði og friði eftir Tolstoy, því einhver hafði sagt að þetta væri ein besta skáldsaga í heimi. Breið þjóðfélagsrýni með yfir 500 persónum sem nær utan um allt rússneskt samfélag frá bændum til aristókrata í Rússlandi á tíma Napoleonstríðanna. Ég kláraði aldrei söguna. Eftir hundruðir blaðsíðna fannst mér alltaf að sagan væri samt bara að byrja og það væri endalaust eftir.

Svona líður mér alltaf í dag þegar ég internetsörfa um bloggheima og annað stöff á veraldarvefnum. Bloggið og facebook og allt þetta dót hefur hrint af stað gígantísku samfélagslegu skrifprojekti, þar sem allskonar fólk kveður sér hljóðs og segir frá einhverju eða gerir athugasemdir og svo framvegis. Niðuarstaðan er nánast óendanlega breið og löng samfélagsleg skáldsaga, sem maður getur lesið endalaust og manni finnst alltaf sagan vera rétt að byrja og endalaust eftir. Þó hef ég ekki enn lagt frá mér bókina. Í raun er ég gagntekinn af þessu lesefni og sogast inn þennan heim á nánast hverjum einasta degi.

Ég ætla hér að fjalla um nokkrar af mínum uppáhaldstýpum sem oft skjóta upp kollinum í þessari breiðu samfélagsskáldsögu.

1. Athugasemdaskúmar

Að mínu mati eru athugasemdaskúmarnir langskemmtilegustu fígúrurnar á alnetinu. Ég get varla hamið mig í hvert sinn sem ég les pistil eða bloggfærslu að skrolla niður síðuna til að sjá hvort einhver úrillur öfgamaður sé búinn að drita í athugasemdakerfið. Best finnst mér þegar skúmarnir tjá sig með sérkennilegri stafsetningu, eins og að SKRIFA ALLT Í HÁSTÖFUM til að tjá sérstaklega sterka reiði, eða eða að setja þrjá punkta ... í hvert sinn sem skrifarinn hefur stoppað til að anda.

2. Ritsóðar

Eftir áratuga flugsamgöngur til og frá Íslandi hefur það loks komist úr týsku að vera flugdólgur. Í staðinn hafa internetdólgar snúið sér að dónaskap í tölvutæku formi. Það eru þeir sem hafa stofnað blogg að því er virðist eingöngu til að skíta yfir fólk. Stundum kalla menn þessa týpu sóðabloggara.


3. Mannorðsmorðingjar

Það eru þeir kallaðir sem skrifa eitthvað neikvætt um fræga eða ríka einstaklinga. Þeir flokkast sem slíkir sama hvort það sem þeir segja er satt eða logið. Kirkjunnar menn stilla sér oft upp í einskonar heilagt stríð gegn þessum týpum.


4. Lýðskrumarar

Stundum líka kallaðir upphlaupsmenn. Upphlaupsmenn hvetja annað hvort til upphlaups í Þingsölum, eða  á torginu fyrir utan þinghúsið. Ef einhver valdaróni segir eitthvað gott um útlendinga þá bregst lýðskrumarinn við með svika- og landráðabrigslum.

5. Valdarónar


Það mætti færa rök fyrir því að valdarónar séu aðalpersónurnar í þessari breiðu samfélagslegu skáldsögu. Því nánast allt sem er skrifað og kommentað snýst með einum eða öðrum hætti um fígúrur, sem flokkast í þennan hóp. Valdarónar eru fíflin sem stjórna öllu. Þetta eru dusilmenni og gungur og druslur, sem með útpældum samsærum hafa sölsað undir sig öll völd í samfélaginu. Og á meðan þessir einstaklingar skíta í brók þá sveima athugasemdaskúmarnir og drulla yfir þá. Þannig skapast helsta dramatíkin í þessum heimi.