miðvikudagur, 25. apríl 2012

Er lífið - og jafnvel sjálft Landsdómsmálið - Leikhús Fáránleikans?

Fáránlegur ljóðaupplestur dadaistans Hug Ball
Í leit sinni að sannri þekkingu kom að því að Sókrates leitaði uppi skáldin og spurði þau um hvað þau vissu? Hann komst að sömu niðurstöðu og hann komst að varðandi aðrar starfsstéttir, að skáldin vissu ekki neitt frekar en hann sjálfur.

Ég vissi ekki af þessum rannsóknarniðurstöðum Sókratesar þegar ég var tvítugur og skráði mig í háskólanám í bókmenntafræði. Ég, eins og allt annað ungt fólk, vildi vita allt og skilja allt. En þar sem tíminn er naumt skammtaður og lífið skilyrt af ýmsum óþægilegum aðstæðum þurfti ég að ganga strategískt til verksins. Á endanum veðjaði ég á skáldin. Ég ákvað að beina spurningum mínum til þeirra.

Mörgum árum síðar sannfærist ég meir og meir um niðurstöðu Sókratesar. Skáldin vita ekkert í sinn haus. Og ég er í auknum mæli farinn að beina spurningum mínum til hagfræðingana, en inní mér býr nagandi efi um hvort þeir viti eitthvað frekar.

Í millitíðinni er þó hægt að slá um sig með tilvitnunum. Í tengslum við Landsdómsmálið finnst mér viðeigandi að vitna í enska 18. aldar höfundinn Henry Fielding, sem skrifaði eftirfarandi í skáldsöguna Tom Jones:

Life most exactly resembles the stage, since it is often the same person who represents the villain and the heroe.
Skúrkur
Og á öðrum stað rökstyður Fielding þessa fullyrðinguna svona:

For though the facts themselves may appear, yet so different will be the motives, circumstances, and consequences, when a man tells his own story, and when his enemy tells it, that we scarce can recognize the facts to be one and the same.

eða hetja?
Þetta nær ágætlega utan um það, sem situr eftir í mér eftir að hafa fylgst með réttarhöldunum yfir Geir Haarde. Hversu ólíkt menn segja frá og túlka atburði eftir því frá hvaða sjónarhóli menn líta á málið.

Ef maður les mikið af bloggum, eins og ég geri, þá rekst maður oft á þá kenningu að allskonar uppákomur, sem fjölmiðlar segja frá, séu bara leikrit. Stundum tilgreina menn hver sé höfundur verksins og hverjir leiki hlutverkin. Til dæmis skrifaði Guðni Ágústsson um það að stjórnmálaflokkurinn Björt Framtíð væri leikrit, sem Össur Skarphéðinsson hefði samið. Og aðrir hafa sagt að Guðni ásamt Mikka Mús, hafi leikið aðalhlutverkið í nýlegu leikriti eftir Ólaf Ragnar Grímsson, sem hét „Áskorun til Forseta Íslands”. Svo halda því margir fram að leikhúsmaðurinn Hádegismóri sé helsti strengjabrúðumeistari landsins. Oft greina menn á milli hvort eitthvað sé tragedía eða leikhús fáránleikans.

Einu sinni sat ég á knæpu í Berlín og drakk bjór með þremur doktorsnemum í heimspeki.  Þá ákvað ég að nýta mér tækifærið og leggja undir þá þessa leikhúskenningu um veruleikann, sem Shakespeare orðaði þannig:

All the world's a stage,
And all the men and women merely players;
They have their exits and their entrances,
And one man in his time plays many parts,
His acts being seven ages.
 
Þeir höfðu allir hugsað um þetta djúpt og lengi, en  komist að þeirri niðurstöðu að þessi myndhverfing stæðist ekki og næði ekki að fanga veruleikann. En ég man ekki rökin, sem þeir færðu fyrir því, og þess vegna veldur kenningin mér áfram miklum heilabrotum. Ég verð að viðurkenna að ég kemst ekki að neinni niðurstöðu í málinu.